Föðurlandssvikarinn

Fyrir rúmu ári tók ég þá ákvörðun að flytja af landi brott. Hef síðan ég man eftir mér haft óslökkvandi útþrá. Af ýmsum ástæðum, meðal annars fjárhagslegum hafði ég í mörg ár ekki haft tækifæri til að sinna þeirri hlið persónuleika míns.

Hið gullna tækifæri kom þegar aðstæður spörkuðu mér kaldranalega af klakanum góða. Oft verða nefnilega slæmar aðstæður til þess að maður tekur ný skref og þorir. Þá námsmaður og einstæð móðir með þrjú börn stóð ég í fyrsta sinn frammi fyrir því að fá ekki vinnu.

Mér bauðst engin aðstoð þar sem ég var enn skráð í skóla í nokkrar einingar. Lánasjóðurinn átti að sjá um mig sem hann gerði ekki sökum of fárra eininga. Ekki gat ég fengið atvinnuleysisbætur og enga aðstoð hjá félagsmáladæminu. Ég horfði sem sé fram á heilt sumar án peninga. Þá var ekki annað að gera en að taka áhættu. Ég fékk vinnu við sumarafleysingar í Noregi með loforð um helgarvinnu og aukavaktir í afleysingum um veturinn. Hef síðan lifað ágætis lífi á 15% fastri vinnu og síðan aukavöktum (oftast um 70-85% vinna yfir veturinn).

Eftir ár í Noregi verð ég að segja að þó ég elski auðvitað landið mitt Ísland þá finnst mér landið sem ég bý í núna hafa allt sem Ísland hefur upp á að bjóða og í raun svo miklu miklu meira. Það eina sem það getur ekki gefið mér er fjölskylda og vinir. Hef reyndar stungið upp á því við stórfjölskylduna að flytja hingað út til mín því þá væri þetta fullkomið. Norður-Noregur hefur íslenska landslagið og á vesturlandinu er íslenska rokið ef maður saknar þess. Hér er ekki endalaus leiðindakreppa og allt sem henni fylgir. Veðrið er mun betra, launin duga lengur og hér kemst maður í ferðalög til hinna ýmsu útlanda og jafnvel langt suður á bóginn á góðu verði.

Hef fengið að heyra það að ég sé svo allt of neikvæð í garð Íslands og ég eigi að hætta að tala svona. En eftir svo mörg ár þar sem maður hafði ekki efni á að fara í ferðalög til annarra landa var þetta hin fullkomna lausn fyrir manneskju með ólæknandi útþrá. Núna bý ég í útlöndum og fæ útrás fyrir tungumálaáhuga minn á hverjum degi. Lífið hér er mun léttara að svo mörgu leyti. Ég er ekki lengur föst á lítilli kreppu- og veðurbarinni eyju í miðju Atlantshafi. Það eina sem skyggir á gleði mína er að ég sakna ykkar sem mér þykir svo vænt um. Hefði kosið að við hefðu öll fæðst í Noregi barasta. Það hefði einfaldað málið.

Eigið góðan dag kæru Íslendingar, kannski skipti ég um skoðun einn daginn, en núna er Noregur klárlega málið!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mikið rosalega er ég glöð fyrir þína hönd Guðrún mín. Þetta hljómar ótrúlega vel og spennandi. Ég veit nákvæmlega hvað þú ert að meina. Fékk þessa sömu tilfinningu þegar ég flutti til Sviþjóðar. Ég er stolt af þér að gera það sem leit út fyrir að vera soldið "skerí".

Samgleðst þér innilega,

Erla Sólrún :)

Erla Sólrún (IP-tala skráð) 28.7.2012 kl. 18:17

2 Smámynd: Vilhjálmur Bjarnason Ekki fjárfestir

Sæl Guðrún. Flott blogg hjá þér, það vakti mig til umhugsunar, sem er gott og setti ég inn á Facebook hjá mér og bloggaði eftirfarandi eftir að hafa lesið þitt blogg. Vona ég að mér sé fyrirgefið að hafa notað blogg þitt sem innblástur. Bestu kveðjur til þín og þinna og vertu dugleg að skrifa bæði á Facebook, bloggi og annars staðar. Kveðja Villi, Thelma biður líka kærlega að heilsa.
Reynslusaga einstæðrar móður með þrjú börn sem flutti til Noregs fyrir rúmu ári síðan og upplifir sig sem föðurlandsvikara vakti mig til umhugsunar. Ekki það að ég sé að ráðleggja fólki að flytja í stórum stíl til útlanda þó ég skilji hvers... vegna margir, í raun allt of margir, skuli hafa þurft að taka þá ákvörðun.
Þær aðstæður sem venjulegum fjölskyldum er boðið upp á hér á íslandinu okkar góða eru ekki fólki og fjölskyldum bjóðandi.
Það er einmitt ein aðalástæðan fyrir því að ég tók þá ákvörðun fyrir þremur árum síðan að taka þátt í því þarfa sjálfboðaliðastarfi sem starf í stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna er í þess að "gefast" upp og flytja erlendis.
Með því að berjast fyrir löglegum og sanngjörnum leiðréttingum á stökkbreytingu neytendalána, bæði gengisbundnum og verðtryggðum, þá er ég að vonast til að færri þurfi að taka þá erfiðu ákvörðun að flytja til annara landa og þeir sem þess hafa þurft eða valið vegna aðstæðna sjái sér fært að flytja einhvern tímann "heim" aftur.
Eitt mesta mannréttindamál okkar er í mínum huga það að geta valið hvar ég og mín fjölskylda búum. Að landinu sem ég fæddist og ólst upp í sé ekki stjórnað á þann veg að ég sé tilneyddur til að flytja annað til að geta boðið börnunum mínum upp á mannsæmandi líf til framtíðar.
Já mér finnst rétturinn til að búa í besta landi í heimi vera grundvallarmannréttindi og læt engan neyða mig til að flytja annað og berst með kjafti og klóm fyrir þessum mannréttindum mínum og fjölskyldu minnar.
Föðurlanssvikararnir eru þeir sem sköpuðu þessar aðstæður með athöfnum eða athafnarleysi sínu og þeir sem hafa ekki staðið sig í því hlutverki sem þeir eru ráðnir eða kosnir í eftir að þessar aðstæður komu upp sem neitt hafa allt of margar íslenskar fjölskyldur til að yfirgefa land sitt, fjölskyldu og vini.

Vilhjálmur Bjarnason Ekki fjárfestir, 30.7.2012 kl. 09:48

3 identicon

Sammála, eina sem ég sakna verulega frá Íslandi eru ættingjar og vinir og langar oft að flytja aftur heim til að missa ekki af stórum hlutum eins og brúðkaupum, skírnum og þess háttar. En maður verður víst að velja og hafna í þessu lífi.

Hjördís Ósk Sigtryggsdóttir (IP-tala skráð) 30.7.2012 kl. 09:58

4 identicon

Þetta er nakvæmlega það sem eg hef hugsað :) Er alsæl með lifið og tilveruna i Noregi, en sakna að sjalfsögðu fjölskyldu og vina.

Iris Gisladottir (IP-tala skráð) 30.7.2012 kl. 10:58

5 Smámynd: Benedikta E

Gott að heyra að þér vegnar vel í Noregi Guðrún. En ég vil aðeins benda á aðra hlið málsins - Eftir margra ára reynslu af því að búa erlendis við leik og störf - skólagöngu - með börn og buru og góða afkomu á öllum sviðum þá kemur að því hjá flestum / mjög mörgum að heim vil ek - Það er sama hvað lengi Íslendingur er í útlöndum með góða tungumála kunnáttu og allt annað í góðu lægi - þá er maður alltaf útlendingur nema í sínu eigin landi Íslandi - Eftir því sem dvölin erlendis verður lengri því meiri Íslendingur verður maður - fyrst saknar maður fjölskyldu og vina eins og þú talar um - svo er það íslenski maturinn - kjötið fiskurinn og mjólkurvörurnar rjóminn - svo kemur að rokinu og rigningunni. En þetta fer ekki að gera vart við sig fyrr en eftir ca. tveggja ára dvöl erlendis - Þú ert ekki alveg komin að þeim tímamörkum - Nú veistu allavega hvað gæti dúkkað upp varðandi heimþrána - svo kemur að því það halda manni engin bönd bara fara - HEIM -

Benedikta E, 30.7.2012 kl. 11:33

6 identicon

Skil þig vel og er í sömu aðstæðum, elska lífið hér í Noregi en sakna þess að hitta ekki og sjá fjölskylduna. Megi ævarandi skömm fylgja þeim sem hruninu ollu og þeim sem frá því hafa, hylgt undir með lítilli prósentu Íslendinga sem hagnast hrikalega á rányrkju frá venjulegum fjölskyldum.

Líður vel og gengur vel en sakna auðvitað margra hluta að "heiman" en hef fest það í mig að á meðan verðtrygging og ójöfnuður er eins og hann er núna á Íslandi þá mun ég ekki einu sinni heimsækja það spillta lastabæli.

Baráttukveðjur frá Hamar Noregi.

Arnthor (IP-tala skráð) 31.7.2012 kl. 22:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband