Færsluflokkur: Bloggar

Hamingjan í Reykjavík

Úti að hjóla, setið á grasinu á Austurvelli,
kaldur drykkur sötraður á kaffihúsi
spjallað, brosað, hlegið.
Setið úti á svölum með sólgleraugu og bók.
Hringt í vinkonu, tærnar viðraðar í hitanum.

Þakklæti fyllir hjarta mitt!
Það er ekkert sjálfsagt að upplifa hamingjuna.
Það er ekkert sjálfsagt að geta liðið vel.
Það er ekkert sjálfsagt að geta andað að sér sumri og sól.
Þetta upplifði ég allt í dag!

Með óskum um góða líðan og hamingjuríkt sólarsumar!


Hvernig eignast fólk bloggvini?

Ég er rétt nýbúin að stíga öðrum fætinum til jarðar í landi bloggara og er að undirbúa mig undir göngutúr í nýju landi. Mér líður eins og Íslendingi sem kemur í fyrsta sinn til Asíu. Ég veit ekkert hvað snýr upp og hvað niður. Mig langar að kynnast menningunni og læra að tala tungumálið. Um hvað talar fólk? Hvernig eignast það bloggvini og hvernig veit maður að einhver er yfir höfuð að lesa það sem maður skrifar?

Ég viðurkenni að þegar kemur að tækni þá fæ ég ekki háa einkunn en mér finnst gaman að skrifa. Ég bara kann ekkert á þetta allt saman! Jæja þá er að athuga hvort maður fær einhver viðbrögð. Eruð þið þarna úti einhvers staðar?


Ég ætla, ætla, ætla ...

Jæja nú er mamman búin að senda strákana sína tvo úr landi. Framundan er heill mánuður þar sem aðeins móðir og hálffullorðin dóttir deila heimili. Ætli það sé ekki best að hætta þessum tilfinningarússibanaferðum móðurhjartans og snúa sér að því að njóta þess að hafa allt í einu meira svigrúm, frelsi og tíma.

Ég ætla, ætla, ætla að gera svo margt. Þetta er eins og þegar maður er nemi og hugsar til sumarsins. Maður ætlar gjörsamlega að gera allt -  já meira en nokkrum meðalgreindum meðalmanni gæti nokkru sinni tekist á einu meðalári ;) Auðvitað gerir maður svo ekki nema hluta af öllu sem maður ætlaði sér - en það er allt í lagi. Það er gott að eiga sér drauma þó að þeir verði ekki allir að veruleika. Sumir þeirra rætast allavega og það er alveg nóg!!!

Eitt af því sem ég ætla, er að fara á bókasafnið og ná mér í skólabók í Sögu sálfræðinnar sem er kúrs sem ég tek í haust. Ég ÆTLA að undirbúa veturinn því ég ÆTLA að ná góðum einkunnum. Einhverjir hrista eflaust hausinn yfir því að fólk sé að lesa skólabækur á sumrin og hafa enga trú á að þessi ætlun sé annað en orðin tóm. En það verður að hafa það í huga að fagið sem ég er að læra er svo endalaust spennandi og áhugavert. Eitt sem ég hef lært í sálfræðinni er að besta forspá um hegðun manna er fyrri hegðun.
Sumarið áður en ég hóf nám í sálfræðinni las ég spjaldanna á milli námsbókina í Almennu sálfræðinni sem er (eða var allavega) aðal fallfagið á fyrsta árinu. Það efldi mig enn frekar í þeirri ætlun minni þegar mér var sagt að sumarið myndi ekki endast mér til að lesa þessa bók.

Annað sem er á planinu er að eiga góðan mæðgnatíma. Við mæðgurnar ætlum í búðir að skoða föt og versla aðeins. Það hefur ekki verið gert mjög lengi og oft var þörf en nú er nauðsyn! Margt annað er á planinu en nú ÆTLA ég að hætta að blogga í bili.

Hafið það sem allra best elsku bestu þið - gaman væri að fá einhver viðbrögð svona til að vita að einhver lesi bloggið manns.

 


Bloggarinn vaknar í fyrsta sinn

Ég vakna, nudda augun, ligg aðeins lengur í rúminu og staulast framúr. Ég vakna smátt og smátt og man hvar ég var stödd í veröldinni þegar ég fór að sofa. Að sofna er eins og ýtt sé á pásu, að vakna er eins og ýtt sé á play.
Í gær var laugardagur og það var ekki alveg minn dagur. Mér leið eiginlega bara hundilla - kveið því að strákarnir míninr væru að fara til útlanda til pabba síns í heilan mánuð. Ég hafði þó vit á því að drífa mig út að hjóla í góða veðrinu, skoða mannlífið í miðbænum og skreppa í heimsókn. Þetta hressti konuna auðvitað við!
Í dag er sunnudagur. Í dag vaknaði bloggarinn ég í fyrsta sinn. Ég hef aldrei áður vaknað sem bloggari. Ætli lífið verði eitthvað öðruvísi?

Eigið góðan dag!


Fyrsta bloggið!

Ég hef lengi verið að hugsa um að blogga. Nú er komið að því að pófa þennan tjáningarmáta! Haldið ykkur fast því bráðum kemur nýr penni í bloggheima. Hann er syfjaður núna og þetta er bara test. Hlakka til að kynnast bloggheimum :)


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband