Mér finnst sálfræði einstaklega áhugavert fag. Ég man í einum af fyrstu tímunum mínum í sálfræðinni í HÍ þar sem ég upplifði þessa sterku "hér á ég heima" tilfinningu. Þetta var það sem ég vildi læra. Síðan hef ég setið í mörgum mörgum tímum misskemmtilegum en aldrei séð eftir því að hafa valið mér þetta fag. Mig langar að segja ykkur frá tilraun sem við lásum um á fyrsta árinu.
Seligman og Maier gerðu fræga tilraun á hundum árið 1967. Þessi tilraun hefur verið margendurtekin með mismunandi tilbrigðum. Hundar voru settir í sérstakt búr og svo var straumi hleypt á. Annar hópurinn gat ýtt á rofa með trýninu til að stöðva strauminn. Hinn hópurinn hafði aftur á móti ekki þann möguleika og hafði því enga stjórn á aðstæðum. Þess var gætt að báðir hóparnir fengju alveg jafn mikinn straum í nákvæmlega jafn mörg skipti.
Í næsta hluta tilraunarinnar var hundunum kennt að þeir gætu forðað sér frá straumnum með því að hoppa yfir lítinn skilvegg yfir í hinn enda búrsins. Stuttur tónn var spilaður áður en straumur var settur á. Hundarnir sem höfðu getað forðað sér í fyrri hluta tilraunarinnar lærðu að gera þetta fljótt og vel. Þeir hegðuðu sér áfram eins og hundar gera, hlupu um, geltu við og við o.s.frv. Hundarnir sem ekki höfðu haft neina stjórn áttu erfitt með að læra þetta. Þeir urðu fljótlega mjög óvirkir, lögðust niður, vældu og reyndu ekki að forða sér. Þeir virtust hafa gefist upp. Þeir höfðu lært hjálparleysi.
Seligman vildi meina að þetta lærða hjálparleysi sem sást svo glöggt hjá hundunum ætti mikið skilt við þunglyndi í mönnum og hugsanlega væri hér komin ein skýring á þunglyndi. Þetta hljómar skynsamlega og þegar ég fór að velta þessu fyrir mér fannst mér ég sjá skýringu á ýmsu bæði hjá sjálfri mér og öðrum. Maðurinn er aftur á móti flókin skepna og það er svo margt sem taka þarf með í reikninginn. Við höfum til dæmis mismunandi skapgerð sem hlýtur að hafa áhrif á það hvernig við tökumst á við alls konar aðstæður í lífinu sem við höfum ekki stjórn á. Sumir eru þannig að þeir gefast bara ekki upp hvað sem tautar og raular.
Það eru sennilega margar og mismunandi ástæður fyrir þunglyndi manna. Það er erfitt að segja til um ástæður en eitt af einkennum þunglyndis er aðgerðarleysi og upplifunin á því að hafa ekki stjórn á aðstæðum. Stundum er hægt að brjóta vítahring þunglyndis með því að byrja á að ráðast á einhver einkennanna. Við getum sem betur fer lært nýja hegðun og nýja hugsun þó að oft sé erfitt að brjótast upp úr gömlu fari!
Ég hef sjálf reynt að nýta mér þessa þekkingu með því að gera eitthvað sem gefur mér þá upplifun að ég sé við stjórnvölinn þegar drungalegir dagar koma. Stundum nægir mér að gera eitt atriði á to do listanum en stundum þarf ég að vera á fullu allan daginn til að hressa sálartetrið við. Það er svo margt sem við getum gert sjálf til að bæta líðanina. Gerum það sem við getum en verum ekki hrædd við að leita okkur hjálpar ef þess gerist þörf!
Bloggar | 4.7.2010 | 17:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Mér hálfleiðast svona alhæfingar. Ef þetta er rétt, af hverju ætli unga fólkið sé þá svona? Ætli það sé ekki vegna umhverfisins sem eldra fólkið hefur mótað (eins og þessi sem er að gagnrýna)? Einhver ætti að skrifa grein um það hvernig hægt er að skapa hvetjandi umhverfi sem stuðlar að breyttri hegðun þeirra sem ekki nenna að vinna hvort sem þeir eru ungir eða aldnir!
Ungt norskt fólk nennir ekki að vinna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | 4.7.2010 | 13:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Vonandi nær lundinn sér á strik! Ætli kanínunum sé eitthvað farið að fækka? Var búin að heyra að þær væru að eyðileggja holurnar ...
Ég á skemmtilegar, spennandi en líka sorglegar minningar frá lundapysjutímum í Eyjum. Maður fór út með pappakassa að leita að lundapysjum sem villtust margar inn í bæinn í fyrsta flugi sínu. Það var ótrúlega spennandi að leita, finna og bjarga þessum ungum lundanna.
Einu sinni fann ég skrofu. Man hvað hún beit mig fast! Ég man þegar ungur nágranni, sennilega nýkominn með bílpróf bakkaði ofan á pysju sem var undir bílnum hans. Við krakkarnir litum hann aldrei sömu augum eftir það. Ég man þegar við systurnar tókum upp á því að bjarga olíublautum lundapysjum úr höfninni, setja þær í bað í bala heima og gefa þeim hráan fisk að borða. Einhverjar þeirra drápust en aðrar lifðu.
Ég man þegar við reyndum að kenna þeim að fljúga fyrir utan húsið heima, ein þeirra var of duglegur nemandi og flaug í burt frá okkur. Ég man þegar við krakkarnir vorum að metast um hverjir hefðu fundið flestar pysjurnar - og hvað við vorum stundum hrædd um að skúmarnir ætu þær þegar við slepptum þeim út á sjó! Vá maður fer alveg á flug í minningunum :)
Betri horfur hjá lundanum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | 3.7.2010 | 12:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sko - mér finnst ferlega gaman að blogga en það er bara eitt. Það svara manni svo fáir. Það finnst mér ekkert sérstaklega skemmtilegt. Ég er ný í bloggheimum og á svo sem ekki marga bloggvini ennþá. Ég nenni eiginlega ekki að tala við engann - svo ef það er einhver að lesa þetta, þá vinsamlegast látið mig vita. Mér líður eiginlega eins og ég sé persóna í sögunni Palli var einn í heiminum ...
Enginn er ekkert skemmtilegur og maður verður frekar einmana að eiga hann að vini. Ef þú ert ekki Enginn þá segi ég - hæ gaman að fá þig hingað í heimsókn :)
Bloggar | 2.7.2010 | 21:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Alltaf hræðilega sorglegt þegar fólk tekur líf sitt. Það er ljóst að það þarf meira en tap í fótboltaleik til að menn taki slíkar ákvarðanir. Að baki hverju sjálfsvígi er líklega örvæntingarfull þjáning sálarinnar - svo mikil að fólk upplifir að það þoli ekki meira. Oft þarf svo bara eitthvað sem "triggerar" til að skrefið sé stigið.
Ég óska þess innilega að þeir sem íhuga slíkt leiti sér hjálpar því það er hægt að fá hjálp- og oft er hamingjan handan við hornið! Eftir langa nótt kemur bjartur dagur og sólin fer að skína!
Framdi sjálfsmorð eftir tap Brasilíu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | 2.7.2010 | 20:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Gott mál! Við vorum örugglega mörg sem áttuðum okkur ekki á því að námslán okkar myndu skerðast við það að taka út viðbótarlífeyrissparnaðinn. Ég verð að segja að mér léttir mjög við að heyra af þessari breytingu. Ég er strax búin að senda LÍN bréf með beiðni um leiðréttingu á lánunum :)
Við nemar höfum ekki fengið margar jákvæðar fréttir undanfarið frekar en aðrir. Námslán okkar sem eigum börn munu skerðast á næsta námsári því framlag með hverju barni umfram fyrsta barn mun skerðast. Sum okkar fáum jafnvel engin námslán. Ég þurfti t.d. af persónulegum ástæðum að hægja á mér í náminu. Nýjar reglur LÍN gera ráð fyrir fleiri einingum á önn en áður til að nemar eigi rétt á námslánum. Ég mun ekki ná upp í þetta nýja lágmark.
Það leit allt ljómandi vel út áður miðað við þær forsendur sem ég gekk út frá þegar ég planaði þetta allt saman. Tvær annir eftir núna- seinni önnin reddast vegna þess að sérreglur gilda um þá sem eru að klára, en aðeins síðustu önnina. Hvað á maður þá að gera næstsíðustu önnina? Bæta við sig einhverjum fögum bara til að fá námslán? Það er hugsanlega möguleiki en ég skil ekki hvernig það hjálpar LÍN að spara. LÍN þarf þá að borga mér meira þegar upp er staðið. Var ekki tilgangurinn að spara hjá Lánasjóðnum?
Skerðir ekki námslán | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | 1.7.2010 | 13:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Í tilefni hvatningarátaksins Til fyrirmyndar (sjá nánar á www.tilfyrirmyndar.is) hef ég verið að hugsa um það hverjir mér finnast vera til fyrirmyndar.
Mér finnst:
Eva Jolie vera til fyrirmyndar í því hvernig hún berst fyrir réttlætinu og sýnir styrk og hugrekki
Ögmundur Jónasson vera til fyrirmyndar í að þora að fara eftir sannfæringu sinni
Jón Gnarr vera til fyrirmyndar í að þora að vera hann sjálfur og þora að hrista upp í hlutunum
Mamma mín í því að hafa eignast og alið upp sex börn og eiga svo mikla hjartahlýju
Pabbi minn í því að hafa róið hringinn í kringum Ísland á kayak og sýnt þannig fádæma viljastyrk
Jörgen Pind kennari í sálfræðideild HÍ - fyrirmyndarkennari sem sýnir nemendum hlýju og elskar greinilega sitt fag
Ég gæti haldið lengi áfram en læt hér staðar numið í bili. Endilega bætið við þennan lista. Það er svo gaman og jákvætt að leiða hugann að fólki sem maður getur lært af og tekið sér til fyrirmyndar. Held barasta að maður ætti að gera þetta oftar!
Bloggar | 29.6.2010 | 23:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hún leit á klukkuna, jæja best að drífa sig af stað. Eins gott að ná strætó til að komast á réttum tíma á fundinn. Það var eiginlega sniðugast að leggja af stað rúmum klukkutíma fyrir settan tíma og það gerði hún. Strætó á hálftíma fresti í sumar - það sökkar eins og unglingarnir segja - en þá var bara að skoða í búðir á hinum endanum, ekki endilega svo slæmt!
Vinkona mín steig upp í vagninn, en úps! Hvar voru peningarnir? Æææ hún gleymdi þeim. Strætókortið nýútrunnið og engir strætómiðar í vasanum. Best að athuga hvort bílstjórinn myndi sýna skilning og leyfa henni að fljóta með.
Ég er í smá vandræðum - stundi hún upp- var að uppgötva að ég er ekki með pening á mér - takið þið nokkuð kort? Bílstjórinn svaraði frekar hranalega að svo væri ekki. Hún spurði þá hvort það væri nokkuð möguleiki að hún fengi að fljóta með ef hún borgaði bara tvöfalt í bakaleiðinni. Þegar hann svaraði að hann mætti ekki lána og henti henni hálftpartinn út raddblænum einum saman fauk í þessa annars dagfarsprúðu vinkonu mína. Hún sagði honum að hann væri ósveigjanlegur leiðindagaur og fór út.
Fúlt, næsti strætó ekki fyrr en eftir hálftíma. Hún gekk þungum skrefum í næstu búð, keypti sér eitthvað smáræði og borgaði með debetkorti í þeirri von að ná út smá pening. En nei, upphæðin mátti ekki vera hærri en varan kostaði. Hinum megin í byggingunni átti hins vegar að vera hægt að borga hærri upphæð og fá peninginn út. Það tókst, hún fékk 1000 kr yfir, ekki krónu meira. Hún settist niður til að narta í eitthvað af þessum óþarfa sem hún hafði keypt, fálmaði eitthvað ofan í vasa og fann þá 1000 kr sem höfðu verið þar allan tímann. Fáviti gat hún verið. Hefði hún þá komist með?
Jæja, það fór að styttast í næsta strætisvagn. Eitthvað fór hjartað að slá hraðar þegar hún beið. Hvað ef 2000 kr væri ekki nóg? Hvað kostaði aftur kort? Æi hvernig átti hún að vita það? Búin að vera með nemakort í marga mánuði? Bíddu kostar ekki eitt far 280 kr? Ætli þeir selji ekki örugglega misstór kort? Vonandi eru þeir ekki bara með 10 miða kort. Úff, hún hefði hvort eð er ekki getað reddað sér meiri pening. Enginn hraðbanki þarna.
Jæja þarna kom hann. Hún steig inn ákveðnum skrefum og sagðist ætla að fá kort. Bílstjórinn með svörtu sólgleraugun teygði sig í kortið, 2500 kr takk. Heyrðu, stundi hún upp, ég er bara með 2000 krónur, geturðu gefið mér til baka ef ég borga eitt far? Svarið var ískalt nei. En seljið þið þá ekki minni kort? Svarið var enn kaldara nei. Hann bætti svo við að hún gæti borgað 500 krónur fyrir farið, annars yrði hún að fara út. Nú var allur aumingjaskapur á bak og burt. Reiðin gaus upp í vinkonunni og hún sagði að út færi hún ekki og svo sannarlega myndi hún ekki borga 500 krónur fyrir eitt far. Hann hlyti að geta fundið eitthvað út úr þessu, hún væri jú með pening.
Bílstjórinn sneri sér þá í átt að míkrófóni við hliðina á sér og sagði í hann að hann þyrfti lögregluaðstoð. Vinkonan lét þetta sem vind um eyrun þjóta, gekk inn í vagninn og spurði farþegana hvort einhver gæti skipt 500 kalli. Það gat enginn en nokkrir góðviljaðir farþegar skutu saman í púkk fyrir einu fari og réttu henni. Hún roðnaði, varð niðurlút og tautaði einhver þakklætis og afsökunarorð, gekk svo til bílstjórans og borgaði.
Guð minn góður! Þvílíkt og annað eins. Henni leið eins og stórglæpamanni og betlara á sama augnarblikinu. Tilfinningarnar hringsnerust í hjarta hennar. Skömmustutilfinning, reiði, leiði, stolt yfir að hafa ekki látið þennan leiðindapúka henda sér út. Hún var bæði looser, asni, mesti klaufi í heimi og hetja vegna þess að hún hafði þó reddað sér!
Allt í einu mundi hún eftir týpu sem minnti hana á báða þess bílstjóra. Georg Bjarnfreðarson! Þetta voru pottþétt bræður hans hugsaði hún. Hún brosti og ákvað að senda Jóni Gnarr borgarstjóra bréf um málið og beiðni um að senda alla strætóbílstjóra á mannasiðanámskeið.
Bréfið hefur ekki enn verið sent. Um glæpakvendið vinkonu mína seinheppnu er það að segja að hún er eitthvað farin að efast um ágæti þess að hafa lagt bílnum og notast við strætó. Henni líður meira og meira eins og hún hafi hrapað niður marga metra í þjóðfélagsstiganum við það skref. En kannski Jón Gnarr gæti eitthvað hjálpað?
Bloggar | 28.6.2010 | 13:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mig langar svo að heyra hvernig Íslendingum vegnar sem eru fluttir burt. Ég er ein af þeim sem hef alltaf ætlað að prófa að flytja af landinu í smá tíma allavega. Ég hef oft verið hundfúl yfir að hafa ekki fæðst annars staðar. Maður á kannski ekki að segja svona því það eru svo margt sem maður hefur fyrir að þakka og margt sem er gott hér þrátt fyrir allt. Aftur á móti er það staðreynd að við erum einangruð og lítil þjóð. Maður kemst ekki héðan í burt nema með ærnum tilkostnaði. Veðrið hér er líka ekki beint skemmtilegt stóran hluta ársins.
Fyrir utan þetta þá er kreppan og allt bullið í kringum hana að gera mann gráhærðan ... (eða ætli það sé aldurinn ;))
Ég sé ekki fram á að geta ferðast mikið næstu árin þar sem ég er nemi og hef ein fyrir þremur börnum að sjá. Það eru nú þegar komin þrjú til fjögur ár síðan ég komst af landi brott síðast. Ég myndi leysa það vandamál ef ég flytti bara út. Væri ekki bara skemmtilegt að búa t.d. í Danmörku? Maður gæti þá skotist til útlanda án þess að borga mikið fyrir :) Svíþjóð er nú ekki langt undan - eða Noregur - eða Þýskaland.
Hvað segið þið sem eruð farin eða þekkið til? Á maður að fara í framhaldsnám til einhvers Norðurlandanna eða vera hér heima? Verður ekki HÍ farinn niður um marga gæðastaðla fljótlega?
Bloggar | 27.6.2010 | 20:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hvort sem fólk er sátt eða ósátt við ákvarðanir og áherslur nýja borgarstjórans okkar þá held ég að við getum öll verið sammála um að þarna fengum við mann sem ekki passar inn í stereótýpuna. Jón Gnarr er ekki hinn fullkomni jakkafatagaur sem kann alla frasana. Hann er líkari okkur almúganum - allavega okkur sem finnum svo vel að við erum ekki fullkomin!
Það er eitthvað við það að sjá mann í þessari stöðu tjá sig á Facebook um daginn sinn. Það er líka magnað að hann þori að segja að hann efist um sjálfan sig eins og hann gerði í einni færslunni. Þó að við vitum öll að stjórnmálamenn, forsetar og borarstjórar séu fólk með tilfinningar þá er einhvern veginn eins og það megi ekki sjást.
Lifum við kannski í samfélagi þar sem skilaboðin eru þau að til að komast upp í þjóðfélagsstiganum þurfi fólk að vera fullkomið - eða allavega að láta sem það sé fullkomið? Þegar ég sé mann sem viðurkennir í fjölmiðlum að hann kunni ekki á þetta allt og þurfi tíma til að læra, þá eiginlega léttir mér bara. En frábært að heyra loksins í einhverjum sem er bara hreinskilinn og einlægur og sem er bara hann sjálfur.
Mér finnst "fullkomið" fólk frekar leiðinlegt en samt fell ég sjálf í þá gryfju að reyna að vera fullkomin. Af hverju alltaf að vera að fela það hver maður er? Af hverju alltaf að vera að sýnast? Af hverju má maður ekki bara vera eins og maður er? Af hverju þarf maður alltaf að vita allt og kunna allt og segja allt rétt? Af hverju má maður ekki gera sig að fífli? Af hverju má maður ekki gera mistök?
Kæri Jón Gnarr, takk fyrir að sýna okkur að það er í lagi að vera maður sjálfur! Það er meira að segja bara aðlaðandi og fallegt. Mann langar eiginlega bara næstum því að knúsa þig, eins og þú værir lítill ísbjörn í húsdýragarðinum :)
Bloggar | 26.6.2010 | 01:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bloggvinir
Nóv. 2024 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | |||||
3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 |
10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 |
17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 |
24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar