Hvernig bloggar góður bloggari?

Sælinú gott fólk og annað fólk!

Segið þið mér nú, þið sem þekkið bloggheiminn, hvernig er gott blogg? Heldur maður sig innan ákveðins ramma og bloggar alltaf undir ákveðnum flokki eða hoppar maður á milli flokka eftir því hvernig liggur á manni í hvert sinn?

Ég gæti tjáð mig um það hvernig er að vera Íslendingur búsettur erlendis, líf einstæðs foreldris eða kannski það sem mig langar helst að ræða, um geðheilbrigði. Vinn nefnilega á geðdeild og er með BS í sálfræði. Ég sé hins vegar engan flokk innan færsluflokkanna hér sem mér finnst passa. Kannski er þetta blogg ekki rétti staðurinn fyrir umræðu um þannig mál? Hvernig blogg les fólk? Nenni ekki að skrifa bara fyrir sjálfa mig, skiljiði.


Föðurlandssvikarinn

Fyrir rúmu ári tók ég þá ákvörðun að flytja af landi brott. Hef síðan ég man eftir mér haft óslökkvandi útþrá. Af ýmsum ástæðum, meðal annars fjárhagslegum hafði ég í mörg ár ekki haft tækifæri til að sinna þeirri hlið persónuleika míns.

Hið gullna tækifæri kom þegar aðstæður spörkuðu mér kaldranalega af klakanum góða. Oft verða nefnilega slæmar aðstæður til þess að maður tekur ný skref og þorir. Þá námsmaður og einstæð móðir með þrjú börn stóð ég í fyrsta sinn frammi fyrir því að fá ekki vinnu.

Mér bauðst engin aðstoð þar sem ég var enn skráð í skóla í nokkrar einingar. Lánasjóðurinn átti að sjá um mig sem hann gerði ekki sökum of fárra eininga. Ekki gat ég fengið atvinnuleysisbætur og enga aðstoð hjá félagsmáladæminu. Ég horfði sem sé fram á heilt sumar án peninga. Þá var ekki annað að gera en að taka áhættu. Ég fékk vinnu við sumarafleysingar í Noregi með loforð um helgarvinnu og aukavaktir í afleysingum um veturinn. Hef síðan lifað ágætis lífi á 15% fastri vinnu og síðan aukavöktum (oftast um 70-85% vinna yfir veturinn).

Eftir ár í Noregi verð ég að segja að þó ég elski auðvitað landið mitt Ísland þá finnst mér landið sem ég bý í núna hafa allt sem Ísland hefur upp á að bjóða og í raun svo miklu miklu meira. Það eina sem það getur ekki gefið mér er fjölskylda og vinir. Hef reyndar stungið upp á því við stórfjölskylduna að flytja hingað út til mín því þá væri þetta fullkomið. Norður-Noregur hefur íslenska landslagið og á vesturlandinu er íslenska rokið ef maður saknar þess. Hér er ekki endalaus leiðindakreppa og allt sem henni fylgir. Veðrið er mun betra, launin duga lengur og hér kemst maður í ferðalög til hinna ýmsu útlanda og jafnvel langt suður á bóginn á góðu verði.

Hef fengið að heyra það að ég sé svo allt of neikvæð í garð Íslands og ég eigi að hætta að tala svona. En eftir svo mörg ár þar sem maður hafði ekki efni á að fara í ferðalög til annarra landa var þetta hin fullkomna lausn fyrir manneskju með ólæknandi útþrá. Núna bý ég í útlöndum og fæ útrás fyrir tungumálaáhuga minn á hverjum degi. Lífið hér er mun léttara að svo mörgu leyti. Ég er ekki lengur föst á lítilli kreppu- og veðurbarinni eyju í miðju Atlantshafi. Það eina sem skyggir á gleði mína er að ég sakna ykkar sem mér þykir svo vænt um. Hefði kosið að við hefðu öll fæðst í Noregi barasta. Það hefði einfaldað málið.

Eigið góðan dag kæru Íslendingar, kannski skipti ég um skoðun einn daginn, en núna er Noregur klárlega málið!


Líf námsmannsins og móðurinnar að sumri

Þegar ég var að byrja að blogga fyrr í sumar talaði ég um að ég ætlaði að gera eitthvað af því að læra í sumar. Ég er búin að vera að lesa fyrir kúrs þar sem meðaleinkunnin er yfirleitt á milli fimm og sex. Ég stefni á að ná góðri einkunn! Kúrsinn heitir Saga sálfræðinnar. Er ekki bara ágætt að vera búin að lesa eina 300 síðna bók og komin á bls 258 í annarri 500 síðna bók? Allavega er ég þokkalega sátt svona miðað við að vera í vinnu og síðan allt góða veðrið sem kallar á mann að fara út úr húsi.

Nú er liðinn mánuðu síðan tvö barnanna minna fóru til pabba síns sem býr erlendis. Ég og sú elsta sem ekki fór vegna vinnu, erum búnar að eiga góðan tíma saman. Það er svo dýrmætt að geta gefið börnunum tíma, spjallað, gert eitthvað skemmtilegt, hlegið og bara verið saman á fallegum sumardögum. Ég hlakka mikið til að hitta strákana mína aftur. Rosalega getur maður saknað þessara barna. Stundum verður manni næstum illt inni í sér af söknuði. Það er aftur á móti ekki alslæmt því þá finnur maður enn betur hvað er það dýrmætasta sem maður á.

Þessi tvö hlutverk mín sem ég hef rætt um hér eru skipta mig bæði miklu máli. Ég valdi það að gerast námsmaður og sé ekki eftir því þrátt fyrir ýmsa ókosti sem fylgja því. Kostirnir eru fleiri! Ég fann loksins það sem mig langaði að læra og það verður ekki aftur snúið. Ég ætla að komast upp á þetta fjall - það er enn spölur eftir en ég er farin að sjá í toppinn þarna einhvers staðar.
Foreldrahlutverkið er eflaust mikilvægasta, erfiðasta og mest gefandi hlutverk sem manni hlotnast á lífsleiðinni. Þvílík ábyrgð sem manni er falin - að móta aðra manneskju og koma til manns. Vonandi tekst manni sem best til í því ...

Eigið góðan dag!

 

 


Herjólfur og ógleðin - oj barasta ...

Bara tær snilld! Hálftími er örugglega of stuttur tími til að verða sjóveikur. Ég bjó í Eyjum sem krakki og fór ófáar ferðirnar í Herjólfi í alls konar veðrum. Í mörg ár þurfti ég ekki annað en hugsa um Herjólf, þá varð mér óglatt - oj barasta ...

Til hamingju Eyjamenn!


mbl.is Herjólfur í Landeyjahöfn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Staða námsmanna hér versnar og versnar

Ég hélt eitt augnablik, þegar ég las fyrirsögnina að einhver ætlaði að fara að styrkja okkur íslenska námsmenn hér á landi. En nei, auðvitað gat það ekki verið. Maður hefur ekki séð að hér ríki nokkur skilningur á mikilvægi menntunar. Okkur námsmönnum er að minnsta kosti gert sífellt erfiðara fyrir að vera í námi.

Auðvitað veit maður að það er kreppa. Aftur á móti veit maður líka að þetta er alltaf spurning um forgangsröðun. Ef ráðamenn hefðu sterka sannfæringu fyrir því að menntun væri langtímafjárfesting myndu þeir þá ekki reyna allt, allt, allt til að gæta þess að fólk gæti stundað nám?

Við erum hér með Lánasjóð íslenskra námsmanna sem vill helst ekki lána námsmönnum. Á þeim bæ er reglunum breytt án fyrirvara og sett inn ný skilyrði sem margir geta ekki uppfyllt svo ekki þurfi að lána eins mörgum eins mikið.

Það er orðið mun dýrara fyrir fólk að fara í kvöldskóla á framhaldsskólastigi en áður. Búið er að afnema rétt námsmanna til atvinnuleysisbóta á sumrin. Verið er að breyta reglum um upptökupróf þannig að deildir í HÍ geta sleppt hefðbundnum upptökuprófum og nemandi á þá ekki kost á því fyrr en að ári. Ég gæti haldið áfram en læt hér staðar numið.

En aftur að fréttinni. Til hamingju þið íslensku námsmenn erlendis sem fáið styrk, þið þurfið örugglega á honum að halda!

 


mbl.is Íslenskir námsmenn styrktir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á grænum grundum lætur hann mig hvílast ...

Um daginn deildi ég þessum fallega texta með gamalli veikri konu. Hún var svo þakklát að ég hef sjaldan vitað annað eins. Þessi orð gáfu henni greinilega mikið.

 

Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta.

Á grænum grundum lætur hann mig hvílast
leiðir mig að vötnum þar sem ég má næðis njóta.

Hann hressir sál mína, leiðir mig um rétta vegu
fyrir sakir nafns síns.

Jafnvel þótt ég fari um dimman dal óttast ég ekkert illt
því þú ert hjá mér ...

Sálmur 23

 

 Megi Guð og gæfan fylgja þér!

 

 

 


Pirringur út í lögguna ...

Ef sá sem ók hraðast var á 121 km hraða, hvað ætli hinir hafi ekið hratt, 100, 110? Vá, ætli það sé svona gífurleg hættulegt í besta færi á fáfarinni brautinni. Hvernig er það, má lögreglan sekta mann ef maður er bara rétt yfir? Er ekki eitthvað öryggisbil þarna vegna ónákvæmni mæla og svoleiðis? Nú er ég ekkert á móti því að lögum og reglum sé framfylgt en smá sveigjanleiki í bestu aðstæðum er held ég alveg í lagi.

Lenti í því einu sinni að vera sektuð þegar ég ók um seint að kveldi í sakleysi mínu vil ég segja. Ég segi sakleysi vegna þess að ég var á það litlum hraða að mér datt ekki einu sinni í hug þegar ég var stöðvuð að það væri vegna hraða. Hélt að það væri eitthvað allt annað í gangi.

Þetta var í Lindarhverfinu á veginum sem liggur í gegnum hverfið upp hæðina. Ég geri ráð fyrir að ég hafi verið á svona 60 km hraða. Mér datt ekki til hugar að það væri minni hámarkshraði á svona stórum vegi og man ekki til þess að hafa séð neinar hraðamerkingar. Þekkti mig ekki í þessu hverfi. Vá hvað ég varð reið!


mbl.is Ellefu sektaðir á Reykjanesbraut
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hversdagshetjur eins og þessi maður

Gaman að sjá svo jákvæða frétt um mann sem ekki gefst upp. Það hlýtur að vera mikið áfall að missa allt sitt í bruna. Hann hefði auðveldlega getað gefist upp og hætt í þessum bransa.

Flott hjá VB-Landbúnaði að færa honum útungunarvél. Vonandi taka fleiri fyrirtæki og stofnanir sér það til fyrirmyndar að styðja við fólk sem sýnir hugrekki og hefur hugsjón.

Það eru eflaust margar hversdagshetjur allt í kringum okkur sem hefðu alveg þörf fyrir stuðning og hvatningu til að halda áfram að berjast. Verum nú góð við hvert annað, brosum og segjum eitthvað fallegt við náungann. Höldum svo áfram baráttunni og gefumst aldrei upp.

Það sem gerir mann að hetju er ekki endilega það að vera alltaf "hyper"hugrakkur. Hetjur halda áfram þegar aðrir myndu gefast upp. Þær halda áfram örlítið oftar og örlítið lengur en hinir, einn dag í einu, aftur og aftur, einu sinni enn ...

Ég sá netfangið hans á heimasíðunni svona fyrir þá sem vilja senda honum hvatningu í pósti :) juliusb@simnet.is


mbl.is Missti allt sitt í stórbruna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Getið þið nýtt ykkur þetta? Ég vona það!

Af hverju verður maður alltaf tortrygginn þegar maður heyrir jákvæðar fréttir eins og þessa? Maður á einhvern veginn aldrei von á nokkru öðru en því að verið sé að reyna að taka af manni allt sem hægt er. Sennilega er það traustið á stjórnvöldum sem er farið út um gluggann. Þá er ég ekkert frekar að tala um þessa ríkisstjórn en þá síðustu.

Kannski þarf maður að reyna að verða aðeins jákvæðari ... þetta er gott mál svo langt sem  nær. Það hljóta að vera einhverjir sem geta farið út í endurbætur á húsnæði sínu þó að það sé varla hátt hlutfall þeirra sem eiga fasteign. Ef ég væri í þeirra hópi myndi ég drífa í pallinum og fleiru sem hefur þurft að bíða enda ekki slæmt að fá endurgreiddan virðisaukaskatt af vinnu iðnaðarmannanna og að fá skattaafslátt. Vonandi fá einhverjir iðnaðarmenn vinnu út á þetta.

Hvað segið þið bloggarar og aðrir, getið þið nýtt ykkur þetta?

 


mbl.is Hvatt til framkvæmda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dröslumst nú niður að Seðlabanka í hádeginu!

Mér léttir að heyra af mótmælunum. Við megum ekki láta hvaða vitleysu sem er yfir okkur ganga.

Með lögum skal land byggja!


mbl.is Mótmælt við Stjórnarráðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband