Mér finnst sálfræði einstaklega áhugavert fag. Ég man í einum af fyrstu tímunum mínum í sálfræðinni í HÍ þar sem ég upplifði þessa sterku "hér á ég heima" tilfinningu. Þetta var það sem ég vildi læra. Síðan hef ég setið í mörgum mörgum tímum misskemmtilegum en aldrei séð eftir því að hafa valið mér þetta fag. Mig langar að segja ykkur frá tilraun sem við lásum um á fyrsta árinu.
Seligman og Maier gerðu fræga tilraun á hundum árið 1967. Þessi tilraun hefur verið margendurtekin með mismunandi tilbrigðum. Hundar voru settir í sérstakt búr og svo var straumi hleypt á. Annar hópurinn gat ýtt á rofa með trýninu til að stöðva strauminn. Hinn hópurinn hafði aftur á móti ekki þann möguleika og hafði því enga stjórn á aðstæðum. Þess var gætt að báðir hóparnir fengju alveg jafn mikinn straum í nákvæmlega jafn mörg skipti.
Í næsta hluta tilraunarinnar var hundunum kennt að þeir gætu forðað sér frá straumnum með því að hoppa yfir lítinn skilvegg yfir í hinn enda búrsins. Stuttur tónn var spilaður áður en straumur var settur á. Hundarnir sem höfðu getað forðað sér í fyrri hluta tilraunarinnar lærðu að gera þetta fljótt og vel. Þeir hegðuðu sér áfram eins og hundar gera, hlupu um, geltu við og við o.s.frv. Hundarnir sem ekki höfðu haft neina stjórn áttu erfitt með að læra þetta. Þeir urðu fljótlega mjög óvirkir, lögðust niður, vældu og reyndu ekki að forða sér. Þeir virtust hafa gefist upp. Þeir höfðu lært hjálparleysi.
Seligman vildi meina að þetta lærða hjálparleysi sem sást svo glöggt hjá hundunum ætti mikið skilt við þunglyndi í mönnum og hugsanlega væri hér komin ein skýring á þunglyndi. Þetta hljómar skynsamlega og þegar ég fór að velta þessu fyrir mér fannst mér ég sjá skýringu á ýmsu bæði hjá sjálfri mér og öðrum. Maðurinn er aftur á móti flókin skepna og það er svo margt sem taka þarf með í reikninginn. Við höfum til dæmis mismunandi skapgerð sem hlýtur að hafa áhrif á það hvernig við tökumst á við alls konar aðstæður í lífinu sem við höfum ekki stjórn á. Sumir eru þannig að þeir gefast bara ekki upp hvað sem tautar og raular.
Það eru sennilega margar og mismunandi ástæður fyrir þunglyndi manna. Það er erfitt að segja til um ástæður en eitt af einkennum þunglyndis er aðgerðarleysi og upplifunin á því að hafa ekki stjórn á aðstæðum. Stundum er hægt að brjóta vítahring þunglyndis með því að byrja á að ráðast á einhver einkennanna. Við getum sem betur fer lært nýja hegðun og nýja hugsun þó að oft sé erfitt að brjótast upp úr gömlu fari!
Ég hef sjálf reynt að nýta mér þessa þekkingu með því að gera eitthvað sem gefur mér þá upplifun að ég sé við stjórnvölinn þegar drungalegir dagar koma. Stundum nægir mér að gera eitt atriði á to do listanum en stundum þarf ég að vera á fullu allan daginn til að hressa sálartetrið við. Það er svo margt sem við getum gert sjálf til að bæta líðanina. Gerum það sem við getum en verum ekki hrædd við að leita okkur hjálpar ef þess gerist þörf!
Bloggvinir
Nóv. 2024 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | |||||
3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 |
10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 |
17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 |
24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (25.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Góð færsla og veltir upp mörgum möguleikum.
Að hafa ekki stjórn á aðsræðum getur sjálfsagt valdið þunglyndi. Þegar kannað er hvað starfsmönnum finnst mikilvægast í kjörum sínum þá er það að haf stjórn á vinnunni, launin koma oftast neðar á listann. Því er þetta greininlega mjög mikilvægt element í okkur.
Gunnar Skúli Ármannsson, 4.7.2010 kl. 19:20
Áhugaverð færsla og skynsamlegar ályktanir. Við notuðum rottur í Sálfræði í MH til að skilyrða sársaukafulla reynslu, svo var hægt að kenna þeim ýmsa tækni, til að ná í matarbita.
Á samt dáltið erfitt með að ímynda mér að þunglyndi á alvarlegu stigi sé huglægt ástand, frekar skortur á ensímum eða hormónum jafnvel.
Hins vegar má alveg fallast á að "varnir" gegn þessu hjálparleysi sem þú nefnir megi efla með hugarfarinu einu saman og koma þannig í veg fyrir þunglyndi.
Jenný Stefanía Jensdóttir, 4.7.2010 kl. 23:43
Takk fyrir athugasemdir ykkar Gunnar og Jenný! Það virðist vera að það að upplifa að maður hafi stjórn skipti mjög miklu máli. Upplifun og raunveruleiki fer samt ekki alltaf saman. Þarna fer málið að flækjast. Allavega þá þarf oft ekki mikið til að upplifun manns á stjórn breytist. Kannski dugar að maður sé við stjórnvölinn í einu litlu atriði til að manni fari að líða betur.
Ég man eftir að hafa lesið um rannsókn sem var gerð á elliheimili. Á eflaust eftir að rifja hana upp og skrifa um hana síðar en í stuttu máli þá var gamla fólkinu skipt í tvo hópa. Annar hópurinn réði engu um daginn sinn en hinn fékk valkosti, var falin ábyrgð og hafði eitthvað um daginn sinn að segja. Það kom í ljós að seinni hópurinn vaðr mun ánægðari með líf sitt og það merkilega var að þetta fólk lifði lengur. Að sjálfsögðu er ekki hægt að alhæfa út frá einni rannsókn um að fólk lifi lengur- en eins og ég segi - ég man þetta ekki nógu vel en þetta er áhugaverð pæling.
Sérfræðingar eru ekki sammála um það hvort þunglyndi orsakast af líffræðilegum þáttum eða hugrænum. Það þarf líka ekki að vera að eitt útiloki annað. Hugsanir geta haft áhrif á lífeðlisfræði líkamans og lífeðlisfræði á hugsanir. Þetta er ekkert einfalt mál :) en aðalatriðið finnst mér vera að það er hægt að hjálpa fólki. Það hafa verið þróaðar meðferðir sem rannsóknir hafa sýnt fram á að virki - meira um það síðar ...
Guðrún Soffía Gísladóttir (IP-tala skráð) 5.7.2010 kl. 00:18
Flott grein Guðrún ég sé að þú hefur fundið þinn stað. Þú verður/ert góður sálfræðingur. Í denn í Fb hafði ég mest áhuga á sálfræðinni og ekki væri farið eins djúpt og þú hefur verið að læra. Ég gleymi aldrei einni tilraun. Hún var gerð á Læknastofu. Fyrst var einn fengin til að setja í biðstofuna. Eftir litla stund heyrist, hjálp hjálp...einhver... læknir er að drepa mig. Sá sem var á biðstofunni brást skjótt við, ruddist í á læknastofuna til bjargar. Eftir það voru þrír fengnir til að sitja á sömu biðstofu. Sama gerðist, neyðaróp frá læknastofunni en að þessu sinni gerði engin neitt. Þeir hugsuðu, hinn getur gert þetta....
Haltu áfram á þessari braut
kv Stefan
Stefán Ingi Guðjónsson, 5.7.2010 kl. 18:33
Hef einmitt lesið um þetta fyrirbæri Stebbi! Það er bara dottið úr mér í augnablikinu hvað þetta er kallað. Menn fóru að rannsaka þetta eftir að bandaríkjamenn urðu mjög sjokkeraðir vegna svona atburðar. Manneskja var beitt ofbeldi og drepin rétt við nefið á fullt af fólki og enginn reyndi að hjálpa henni.
Tilhneigingin er að finnast maður ekki bera ábyrgðina eða jafnvel fara að efast um að maður sé að meta hættuna rétt úr því að enginn annar er búinn að gera neitt. Eins getur verið að hugsunin um að maður gerir sig að fífli hindri marga.
Guðrún Soffía Gísladóttir, 6.7.2010 kl. 11:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.